Rýni: Það sem myndavélin fangar

[container] Dancing Horizon er heildarsafn ljósmyndaverka Sigurðar Guðmundssonar sem hann vann á árunum 1970 – 1982. Crymogea gefur bókina út og ritstjóri er Kristín Dagmar Jóhannesdóttir.

Sigurður Guðmundsson hefur fyrir löngu skipað sér sess sem einn merkasti myndlistamaður Íslendinga. Ljósmyndaferill Sigurðar spannar tuttugu ár en hann hefur unnið með þann miðil til jafns við gjörningalist, skúlptúr, texta og teikningu.

Ljósmyndaverk Sigurðar eru athyglisverð, meðal annars vegna þess að þau eru ljósmyndir af list og því ekki um að ræða að listfengið sé fólgið í sjálfri ljósmynduninni. Sigurður nálgast nefnilega miðilinn á allt annan hátt en ljósmyndarar og tjáning hans er fyrst og fremst fólgin í hugmyndinni, eða konseptinu, en síður í ljósmyndinni sjálfri sem slíkri. Því eru tæknileg atriði er varða ljósmyndun fjarlæg listamanninum og myndavélin er eingöngu notuð í þeim hagnýta tilgangi að fanga andartak, ferli, gjörning eða uppstillingu. Dancing Horizon væri því vart hægt að kalla ljósmyndabók; hún er öllu heldur listaverkabók. Sá sem nálgast ljósmyndaverk Sigurðar með augum ljósmyndarans og veltir fyrir sér tæknilegum gæðum myndanna fer á mis við ætlunarverk listamannsins.

Þótt ljósmyndaferill Sigurðar Guðmundssonar sé langur má greina viss leiðarstef í verkum hans. Mikill meirihluti ljósmyndaverkanna eru sjálfsmyndir, þ.e. listamaðurinn sjálfur er hluti af myndefninu. Sigurður er hluti af uppstillingunni sjálfri; stundum er hann gerandi, stundum þolandi og stundum hvort tveggja í senn, eins og til dæmis í verkinu Un mobile, þar sem listamaðurinn spilar á fiðlu með fótinn upp í loftið, en fóturinn er bundinn í tréstubb sem kemur upp úr jörðinni.

Að sama skapi er samband manns og náttúru viðfangsefni sem er Sigurði hugleikið. Oft á tíðum varpar listamaðurinn fram heimspekilegum spurningum varðandi þetta samband og dæmi um slíkt eru verkin Project for the Wind, Drawing og Project for the Wind, Sculpture. Þessar ljósmyndir fanga stiklur úr gjörningi Sigurðar þar sem listsköpun hans er stýrt af vindátt. Þannig hafa náttúruöflin áhrif á sköpunarferlið ásamt því sem gjörningur listamannsins setur sitt mark á náttúruna sjálfa – og úr verður hringrás. Hvort verk samanstendur af fimm svarthvítum ljósmyndum; í Project for the Wind, Drawing „teiknar“ listamaðurinn með því að raða steinum á grasflöt og í Project for the Wind, Sculpture smíðar hann skúlptúr með því að negla tréspýtur á staur. Sigurður segir frá þessu ferli í viðtali í bókinni, „Hér er um að ræða samvinnu manns og náttúru við sköpun listaverksins. Að láta náttúruna, í þessu tilviki vindinn, búa til skúlptúr og teikningu og nota mig, listamanninn, sem auðmjúkan þræl sinn. Kannski til þess að hún geti líka búið til list, verið listamaður.“

Titill bókarinnar, Dancing Horizon, dregur nafn sitt af einu alfrægasta ljósmyndaverki Sigurðar Guðmundssonar. Verkið sýnir listamanninn dansandi á sandauðn með prik á höfðinu, en prikið er næstum því samsíða sjóndeildarhringnum. Hér á listamaðurinn sannarlega í samtali við náttúruna sem hefur sniðið honum þröngan stakk; hann dansar með lárétt prik á hausnum til dýrðar hinum lárétta sjóndeildarhring, án þess þó að geta verið honum fullkomlega samsíða.

Opna úr bókinni: Eitt frægasta verk Sigurðar Guðmundssonar, Dancing Horizon.

Löngu tímabært er að ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar skuli vera gefin út í bók. Dancing horizon er sérlega vönduð bók og eiguleg en hver og ein ljósmynd fær ríkulegt pláss, eða heila opnu, til þess að njóta sín. Formálinn er ritaður af Lily van Ginneken og er hann skrifaður af miklu innsæi og þekkingu. Bókinni lýkur svo með yfirgripsmiklu viðtali ritstjóra við listamanninn sjálfan sem er áhugaverður viðauki við bókina og gæðir hana enn meiri dýpt.

 Nína Hjördís Þorkelsdóttir, meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu.

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *