Einn frægasti píanisti heims í Hörpu

[container] Rússneski píanistinn Evgeny Kissin, mun leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í kvöld og á morgun. Er þetta í annað sinn sem Kissin leikur hér á landi en hann lék einleikstónleka í Háskólabíói sumarið 1996. Þetta mun þó verða í fyrsta sinn sem Kissin leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands en stjórnandi á tónleikunum er Vladimir Ashkenazy.

Tólf ára konsertpíanisti

Evgeny Kissin var aðeins tveggja ára þegar athygli hans tók að beinast að píanóinu og áhugi hans og hæfileikar urðu til þess að foreldrar hans skráðu hann í tónlistarskóla fyrir sérstaklega hæfileikarík börn í Moskvu. Kennari Kissin var Anna Pavlovna Kantor og á meðan píanónáminu stóð skipti hann aldrei um kennara. Þegar Kissin var einungis tólf ára gamall öðlaðist hann heimsfrægð er hann lék báða konserta Chopins með Moskvufílharmóníunni. Frammistaða Kissins á tónleikunum skaut honum barnungum upp á stjörnuhimininn. Fyrir tvítugt hafði Kissin leikið með hljómsveitum um allan heim, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Lundúna og Berlínarfílharmóníunni undir stjórn Herberts von Karajan. Kissin, sem nú er fjörutíu og tveggja ára gamall, hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín og leikið undir stjórn margra virtustu stjórnenda heims.

„Sannkallaður snillingur“

Kissin þróaði snemma með sér nánast ofurmannlega nákvæmni í fingratækni að hætti rússneska skólans. Hann vakti þó einnig verðskuldaða athygli fyrir þroskaða nálgun á tónlistinni miðað við aldur en oft er talað um skort á slíkri nálgun hjá „undrabörnum“ í hljóðfæraleik. Einstök tækni verður þó að teljast aðalsmerki Kissins og hún gerir honum kleift að láta tónlistina flæða óhindrað og hann nýtur sín í krefjandi tæknistrófum jafnt sem skáldlegri og rólegri köflum. Jón Ásgeirsson tónskáld segir eftirfarandi í dómi sem birtist í Morgunblaðinu um flutning Kissin á Íslandi: „Evgeny Kissin er sannkallaður snillingur, ræður yfir ótrúlegri tækni, spannar í leik sínum yfir allt styrkleikasviðið, túlkar margt mjög fallega og af næmum skilningi á formskipan, svo að horfa má til bjartrar framtíðar með þessum unga snillingi“.

Samstarfsfélagar: Ashkenazy og Kissin við æfingar í Sydney.
Samstarfsfélagar: Ashkenazy og Kissin við æfingar í Sydney.

Sumir gagnrýnendur hafa þó fundið Kissin það til fyrirstöðu að flutningur hans sé of fullkominn; að tónsmíðin sé svo þaulæfð að hún missi þá spennu sem einkennir lifandi flutning. Kannski má það vera að fingratæknin beri túlkunina ofurliði eftir allt saman. Gagnrýnandi The Guardian, Andrew Clements, vandaði Kissin ekki tóninn í gagnrýni sinni um einleikstónleika sem Kissin spilaði nú í sumar. Að hans mati hefur Kissin að takmörkuðu leyti þroskað sitt músíkalska innsæi frá því á unglingsárunum og finnst hann klóra lítið undir yfirborðið; tæknin, sýndarmennskan og nákvæmnin eru allsráðandi í spilamennsku hans. Hvað sem því líður er öruggt að fullyrða að Kissin á sér fáa líka hvað fingratækni varðar, hann fipast sjaldan og fréttnæmt þykir ef hann slær feilnótu á tónleikum.

Ísraelskur ríkisborgari

Kissin ólst upp í Rússlandi en foreldrar hans eru gyðingar. Sem barn upplifði hann lítil tengsl við uppruna sinn og leit tæpast á sjálfan sig sem Gyðing. Hins vegar hefur hann í seinni tíð gert gyðinglegum rótum sínum hærra undir höfði og hann öðlaðist til að mynda ísraelskan ríkisborgararétt árið 2013. Kissin hefur á síðastliðnum árum viðrað pólítískar skoðanir sínar í auknum mæli. Hann sendi til dæmis bresku fréttaveitunni BBC opið bréf árið 2009 þar sem hann sagði fréttaumfjöllun miðilsins um Ísrael vera óréttláta og byggða á rangfærslum. Hann hikar ekki við að notfæra sér viðtöl til þess að gagnrýna vestræna fjölmiðlaumfjöllun um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs sem honum finnst einkennast af gyðingahatri og slagsíðu gegn Ísraelum. Jafnframt hljóðritaði Kissin nýlega geisladisk með með eigin ljóðalestri á jiddísku–og þar er píanóið er hvergi nálægt.

Brahms og Rakhmanínov

Tónleikar Evgeny Kissin með Sinfóníuhljómsveit Íslands verða tvennir; miðvikudagskvöldið 1. október og fimmtudagskvöldið 2. október. Verða þeir haldnir í Eldborgarsal Hörpu og munu þeir hefjast klukkan 19:30. Á efnisskránni er sinfónía nr. 3 eftir Johannes Brahms og hinn sívinsæli píanókonsert nr. 2 eftir Sergei Rakhmanínov þar sem Kissin mun vera í hlutverki einleikarans. Hinn nafntogaða hljómsveitarstjóra, Vladimir Ashkenazy, þekkja velflestir Íslendingar og það er ætíð fagnaðarefni þegar hann stígur á stokk með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ashkenazy og Kissin hafa komið fram saman víðsvegar um heiminn en nú munu þetta glæsta tvíeyki leyfa áheyrendum að njóta listfengis síns í Hörpu.

Nína Þorkelsdóttir,
meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *