Egill Helgason og akademísk fræðistörf

[container] Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason er ósáttur við Guðna Elísson prófessor og forseta Íslensku- og menningardeildar HÍ. Frá sumarlokum hefur Egill af og til birt athugasemdir í Facebook umræðuþráðum þar sem hann lýsir furðu sinni á því að Guðni hafi brugðist við skrifum hans um loftslagsmál og áhrifum þrýstihópa á akademískt starf háskóla.

Í fyrra tilfellinu hafði Egill Helgason við fjölmörg tækifæri gagnrýnt svokallaðan hræðsluáróður loftlagsvísindamanna og t.d. líkt rökum þeirra við heimsslitavæntingar kommúnista og nazista. Guðni Elísson birti í framhaldinu nokkrar greinar þar sem Egill kom við sögu þótt hann væri á engan hátt meginviðfangsefnið. Guðni gagnrýndi málflutning Egils og setti hann í samhengi við afneitunarorðræðu samtímans, en sérstaka athygli vekur hvert Egill sækir „þekkingu“ sína og hversu óvarkár hann er í mati á áreiðanleika gagna og heimildarmanna. Fyrsta greinin, „Nú er úti veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“, birtist í Ritinu 2007, önnur greinin, „Þið munuð öll deyja! Lita dómsdagsspár hugmyndir manna um loftslagsvísindi?“, í Lesbók Morgunblaðsins 19. apríl 2008 og þriðja greinin, „Efahyggja og afneitun: Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“, í Ritinu á því ári. Auk þess hafði Guðni brugðist við málflutningi Egils í fáeinum pistlum sem birtust á árunum 2006 til 2008 í Lesbók Morgunblaðsins og hefur verið safnað saman í bók hans Rekferðir sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 2011.

Í síðara tilfellinu tók Egill eindregna afstöðu með félaginu Vantrú í þaulskipulagðri kæruherferð vantrúarfélaga gegn mér, en hún stóð yfir í samfleytt tvö ár og átta mánuði upp á hvern einasta dag (frá 4. febrúar 2010 til 4. október 2012) vegna námskeiðsins Nýtrúarhreyfingar sem ég kenndi haustmisserið 2009 við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Alls var um að ræða fimm kærur, en öll kærumálin vann ég með ótvíræðum hætti og lauk málinu endanlega þegar sérskipuð Siðanefnd HÍ úrskurðaði öll kæruatriði Vantrúar á hendur mér með öllu tilefnislaus 4. október 2012.

Í 4. hefti Tímarits Máls og menningar 2012 birti Guðni Elísson greinina „Í heimi getgátunnar: Kærur Vantrúar, glæra 33 og Egill Helgason“, þar sem hann ræddi m.a. aðkomu Egils að málinu. Þegar Guðni færði þessa grein sína síðar inn á netið, hlóðu á annað þúsund manns henni niður á aðeins fjórum dögum. Eins og búast mátti við reyndist Egill ekki sáttur við athyglina sem greinin fékk, en framarlega á löngum umræðuþræði um málið hjá Ólafi Tryggva Magnússyni á Facebook bregst hann við með eftirfarandi fjórum færslum:

Er það háskólakennari sem er að setja saman þessa löngu steypu um eitthvað sem hefur birst í athugsemdakerfum bloggs fyrir lifandis löngu? Hefur maðurinn ekkert þarfara að gera? Guðni þessi hefur reyndar lengi verið með mig á heilanum. 31. ágúst kl. 15:16.

Ég tengist málinu ekki neitt nema ég skrifaði litla bloggfærslu sem verður Guðna tilefni til ógurlegra langra upprifjana á einhverjum samskiptum sem ég og Vantrúarmenn áttum árið sautjánhundruð og súrkál. Þetta er fjarskalega lítilfjörlegt, satt að segja, og ég skil ekki í háskólamanninum að standa í þessu. 31. ágúst kl. 17:05.

Ég held þetta sé þriðja stóra greinin sem Guðni skrifar um einhverjar bloggfærslur hjá mér, einu sinni var hann algjörlega með það á perunni að ég var eitthvað smávegis að fjalla um loftslagsmál á hátt sem honum líkaði ekki. Mér hefur alltaf fundist þetta stórundarlegt hjá manninum. Og aðkoma mín að þessu Vantrúarmáli var nánast engin, en hann kýs að setja mig þarna í forgrunn. Mér finnst þetta afar kjánalegt hjá manninum. 31. ágúst kl. 17:27.

Eitt ráðið væri auðvitað að hætta að kenna guðfræði við Háskólann. Á hún ekki bara heima í prestaskóla? 31. ágúst kl. 22:21.

Rúmum tveimur mánuðum síðar bætir Egill Helgason við nokkrum færslum í umræðuþræði á Facebook hjá Einari Steingrímssyni prófessor sem vísað hafði á gagnrýni vantrúarfélagans Valgarðs Guðjónssonar á grein Guðna, en mikilvægt er að árétta að í pistli sínum bregst Valgarður á engan hátt við raunverulegu efni greinar Guðna heldur snýr öllu á haus og gerir Guðna upp skoðanir. Þar segir Egill:

Guðni þessi er mjög einkennilegur fræðimaður. Hann er sífellt að eltast við fólk sem hefur verið ósammála honum – stundum fyrir löngu síðan – og reynir að ná sér niðri á því í einhvers konar meintum fræðigreinum. Furðulegur fýr – og einhver sá lang- og heiftræknasti sem ég hef vitað. 6. nóvember kl. 20:50.

Þetta er komment á Facebook, ekki yfirlýsing. En hann Guðni minnir mig á mann sem lendir í átökum, svo eru allir búnir að gleyma því, en þá fer hann gagngert yfir götu löngu síðar til að sparka í manninn sem honum var uppsigað við. 6. nóvember kl. 23:24.

Semsagt þegar ég skrifa eitthvað svona á netið er ég að gefa yfirlýsingu – hvað heitir það, statement, Erklärung, déclaration, erklæring. … Þetta er skrítinn heimur. 7. nóvember kl. 00:02.

Loftslagsbreytingar, heyra þær undir bókmenntafræði? 7. nóvember kl. 00:21.

Egill Helgason hefur um langt skeið verið áhrifamesti fjölmiðlamaður og álitsgjafi landsins, jafnt í krafti sjónvarpsþátta sinna sem tíðra bloggskrifa. Þess vegna er ekki við öðru að búast en að fræðimenn taki hugmyndir hans og málflutning til greiningar og kanni vinnubrögð hans sérstaklega, hvers konar heimildir hann nýti sér, hvernig hann fari með þær og hvaða áhrif þrýstihópar og hagsmunasamtök hafi á framsetningu hans og áherslur. Í grein Guðna um vantrúarmálið dregur hann fram tíð átök Egils við félagið á liðnum árum og hvernig vantrúarfélagar sneru honum að lokum á sitt band með markvissum þrýstiaðgerðum sem kenndar eru við Overton-gluggann og byggja á hugmyndum bandaríska frjálshyggjumannsins Josephs P. Overtons. Eins og Guðni bendir á þá snúa þessi fræði „að því að færa viðmiðunarrammana (eða gluggana) í samfélagsumræðunni, gera öfgahugmyndir úr samtímanum ásættanlegar og ásættanleg sjónarmið smám saman óhugsandi, allt eftir markmiðum félagsins“. Fram kemur í máli forystumanna Vantrúar á innra spjallborði félagsins að ekki megi ræða aðferð Overton-gluggans opinberlega. Hún virki best ef enginn utan að komandi átti sig á því að út frá henni sé gengið.

Egill beitti sér mjög gegn mér með bloggskrifum og athugasemdum víðsvegar á Facebook í desember 2011 en þá hafði kæruherferð vantrúarfélaga á hendur mér staðið yfir í rétt tæp tvö ár. „Litla bloggfærslan“ sem Egill vísar til gat af sér 172 ummæli sem mörg eru afar neikvæð í minn garð og er útprentaða skjalið 32 síður. Egill var sjálfur óspar á yfirlýsingar um það sem hann gat sér til um að ég hefði gert, kallaði það t.d. á bloggi sínu lágkúrulegt, ansi hæpið og hálfgerða dellu. Því miður sýna þessi skrif að Egill reyndi ekki á nokkurn hátt að kynna sér málið heldur byggði hann málflutning sinn alfarið á rangfærslum og blekkingum vantrúarfélaga, þar sem grafið var markvisst undan mannorði mínu og akademískum trúverðugleika. T.d. hæddist Egill að mér fyrir að hafa tekið til greiningar algengar fullyrðingar gegn trúarbragðagagnrýni Richards Dawkins og ýmissa fylgismanna hans. Svo sérkennilega vildi til að flestum þeirra skoðana sem Egill hæddi mig fyrir og gerði að mínum hafði hann sjálfur haldið áður fyrr á lofti í átökunum við vantrúarfélaga, m.a. vísanir í margþætt mannréttindabrot á valdatíma kommúnista og nazista, þótt hann vilji síður viðurkenna það núna. Sjálfur fékk ég heldur betur að finna fyrir andúðinni úr ýmsum áttum eftir yfirlýsingar Egils. Þetta er meðal þess sem Guðni Elísson tekur fyrir í grein sinni.

Ekki er að undra að Agli Helgasyni sé brugðið og kalli síðustu grein Guðna „langa steypu“. Hún afhjúpar vinnubrögð fjölmiðlamannsins og hvernig hann sjálfur „sparkar“ (svo notað sé orðalag Egils) ítrekað í mann sem sætti umfangsmikilli rógsherferð og einelti. Enda þótt Egill ráðist ítrekað gegn nafngreindum einstaklingum á opinberum vettvangi án þess að kynna sér málin gefa skrif hans til kynna að hann eigi erfitt með að taka málefnalegri gagnrýni á sjálfan sig og vilji ekki að menningarrýni nái til hans sjálfs.

Það verður að teljast áhyggjuefni að Egill Helgason skuli telja að „auðvitað [beri] að hætta að kenna guðfræði við Háskólann“ því að hún eigi „bara heima í prestaskóla“. Námskeiðin sem ég hef kennt á liðnum árum við HÍ eru að vísu ekki á sviði guðfræði heldur félagsvísinda og tilheyra almennum trúarbragðafræðum. Engu að síður er guðfræðin akademísk fræðigrein rétt eins og aðrar greinar hugvísinda. Enda þótt hún geti vissulega tekið á sig óvísindalega mynd eins og aðrar fræðigreinar á hún sama tilverurétt innan háskólans og bókmenntafræði, menningarfræði, sagnfræði og heimspeki. Hér má jafnframt minna á að guðfræðimenntun segir ekkert um trúarafstöðu viðkomandi fræðimanns. Guðfræðingar geta aðhyllst hvaða trúarbrögð sem er eða hafnað þeim öllum, t.d. á forsendum yfirlýsts trúleysis.

Þótt full ástæða sé til að gagnrýna Egil Helgason fyrir þau skrif sem hér hafa verið til umræðu þýðir það ekki að afskrifa eigi allar skoðanir hans sem ótrúverðugar. Hér er aðeins verið að fara fram á að hann leggi í þá vinnu að nálgast sérhvert mál með gagnrýnu og hlutlægu hugarfari, kanni forsendurnar og vegi og meti þau gögn sem fyrir liggja og trúverðugleika heimildarmanna sinna. Slíkt ber fjölmiðlamönnum að gera hverju sinni.

Meðal þess sem Egill brenndi sig á var að treysta vantrúarfélögum um of en kæruherferð þeirra leiddi ítrekað í ljós hversu óáreiðanlegir þeir voru í sínu yfirlýsta heilaga eineltisstríði. Ekki aðeins voru kæruatriðin eintómar getgátur heldur hikuðu þeir ekki við að beita ítrekað blekkingum og ósannindum, m.a. á bloggvettvangi Egils sjálfs. Dæmi um slík ósannindi er eftirfarandi athugasemd vantrúarfélagans Ernu Magnúsdóttur sem birtist í löngum umræðuhala um mig hjá Agli 26. desember 2011: „Mundu að það voru meðlimir úr umræddu félagi í þessum fyrirlestrum!“ Enginn vantrúarfélagi sat þetta námskeið. Þeir byggðu allt mál sitt á getgátum og sneru inntaki kennslunnar á haus. Frá upphafi reyndust þeir með öllu áhugalausir um raunverulegt inntak kennslustundarinnar og hvaða fræðilegar forsendur lágu til grundvallar. Svo virðist sem heilagt stríð aðgerðarsinnanna í Vantrú hafi blindað gjörvalla afstöðu þeirra til sanngirni, réttlætis og faglegra vinnubragða. Og Egill lét blekkjast.

Deila

.

[/container]


Comments

29 responses to “Egill Helgason og akademísk fræðistörf”

  1. Hjalti Rúnar Avatar
    Hjalti Rúnar

    >heldur hikuðu [Vantrúarmenn] ekki við að beita ítrekað blekkingum

    Hvaða blekkingar voru það?

  2. Egill Helgason Avatar
    Egill Helgason

    Ég á bara eina ráðleggingu handa Bjarna og Guðna, aðeins að slaka á í Facebook-fræðunum og “get over it”. Er virkilega ekki hægt að finna eitthvað markverðara til að fjalla um?

  3. Voða er píslarvætti algengt hjá guðfræðingum.

    Þú áttir þitt í þessu Vantrúarmáli Bjarni Randver. Sama hvernig þú reynir að setja þetta mál upp að þá átti þessi svokallaði kúrs um vantrú ekkert erindi í Háskólakennslu.

  4. Þórður Ingvarsson Avatar
    Þórður Ingvarsson

    Mér þykir þú furðu bjartsýnn, Hjalti, að ætlast til að þessi gaur svari þér.

  5. Bjarni Randver Sigurvinsson Avatar
    Bjarni Randver Sigurvinsson

    Vantrúarfélaginn Hjalti Rúnar Ómarsson biður hér um dæmi um ítrekaðar blekkingar vantrúarfélaga í kæruherferð þeirra gegn mér á sínum tíma. Dæmin eru fjölmörg og tek ég hér fyrir aðeins tvö, en Guðni Elísson gerir ýmsum þeirra ágæt skil í grein sinni í Tímariti Máls og menningar sem vísað er á í greininni hér fyrir ofan.

    Þegar menntaskólakennarinn Helgi Ingólfsson birti blogggrein um málið 3. desember 2011 þar sem hann gagnrýndi vantrúarfélaga fyrir framgöngu þeirra varði vantrúarfélaginn Arnold Björnsson strax félagið og bætti síðan við eftirfarandi ósannindum: „P.s. ég er ekki félagi í Vantrú svo það fari nú ekki að trufla andsvar þitt.‟ Þessi sami Arnold hafði tekið virkan þátt í að skipuleggja aðgerðir Vantrúar gegn mér á sínum tíma á um 600 bls. löngum umræðuþræði vantrúarfélaga af innra spjallborði félagsins sem lekið var til mín upp úr miðjum september 2010 en þar fagnaði hann því t.d. mjög 25. apríl 2010 að vanhæfa siðanefndin, sem félagið var þá í náinni samvinnu við bak við tjöldin, myndi líklega innan tíðar ávíta mig: „Mikið óskaplega yrði ég glaður. Ég opna kampavín ef þetta verður niðurstaðan[.]“

    Sjá nánar blogggrein Helga Ingólfssonar og viðbrögð Arnolds Björnssonar: http://helgi-ingolfsson.blog.is/blog/helgi-ingolfsson/entry/1209037/.

    Þess má jafnframt geta að vantrúarfélaginn Matthías Ásgeirsson hefur ítrekað reynst óhræddur við að fullyrða um hluti sem hann hefur ekki kynnt sér eins og kæruatriðin öll gegn mér eru ágætt dæmi um. Þegar Guðni Elísson birti grein sína í Tímariti Máls og menningar skrifaði Matthías á bloggvef sinn Örvitann 10. desember 2012: „Af hverju “gleymir” Guðni að nefna Talibananafngiftina?“ Þetta sagði Matthías bersýnilega til þess að draga fram hversu einhliða greining Guðna Elíssonar væri á átökum vantrúarfélaga við Egil Helgason í grein sinni. Matthías virðist þó ekki einu sinni hafa haft fyrir því að fletta greininni því að einn af köflunum heitir „Egill Helgason og vantrúartalibanarnir“ og er fjallað um þetta þar. Og Matthías herti skömmu síðar ennfrekar á „uppgötvun“ sinni á „yfirsjón‟ Guðna því að hann bætti við eftirfarandi yfirlýsingu á Örvitann: „Ég er þegar búinn að benda á alvarlegan galla í málflutningi Guðna. Eitthvað virðast ritrýnendur hafa misst af því.“ Svo fór hins vegar að Matthías varð að viðurkenna að hann hafði felt þennan dóm um grein Guðna án þess að hafa lesið hana. Matthías orðaði það m.a. á þessa leið 12. desember 2012: „Bjarni Randver Sigurvinsson doktorsnemi við Háskóla Íslands heldur áfram að leggja mig í einelti á Facebook vegg sínum og bendir nú að Guðni Elísson bendi bara víst á orð Egils Helgasonar um “talibana” í grein sinni. Nú er það svo að TMM var ekki komið út þegar ég skrifaði þetta, einungis til áskrifenda. Ég gat bara stuðst við frétt Morgunblaðsins um málið. Hvernig stendur þá á því að Morgunblaðið, sem fjallar um málið tilstilli Guðna og Bjarna, fjallar einungis um nasistaorð mín en ekki talibanaorð Egils? Finnst eineltisvinum Bjarna Randvers það eðlilegt? Já, þeir eru lúmskir í eineltinu, Bjarni og vinir hans.‟ Núna í lok sumars sagðist Matthías svo í viðtali á vef Vantrúar vera loksins búinn að renna í gegnum grein Guðna Elíssonar í Tímariti Máls og menningar. Þar segir Matthías í hljóðupptöku um þessa grein: „Guðni Elísson á að heita virtur fræðimaður. Hann skrifar grein sem er í fyrsta lagi fabúleringar hans um samskipti okkar við Egil Helgason og hugsanlegar ástæður þess að Egill Helgason býður mér svo í Silfur Egils og í þeirri umfjöllun þá t.d. missir Guðni Elísson af allri umræðunni um Vinaleið. Hann nefnir hana ekki einu orði þrátt fyrir að það hafi verið gríðarlega heit umræða.‟ Matthías bætir svo við: „En þetta er bara bókmenntafræði. Hann er bara að skrifa skáldsögu.‟ Matthías fer hér enn og aftur með rangt mál því að Guðni nefnir Vinaleiðina sannarlega á nafn og einmitt í tengslum við deilur þeirra Egils og vantrúarfélaga og hvernig þær þróuðust. Um þetta allt má lesa í grein Guðna.

    Því miður er þetta lýsandi fyrir vinnubrögð Matthíasar og félaga hans í Vantrú í gegnum alla kæruherferð þeirra gegn mér á tímabilinu 2010-2012. Fullyrðingagleði þeirra var alfarið byggð á eintómum getgátum en þegar útskýringar voru lagðar fram voru þær með öllu hunsaðar og áfram hamrað á öllum rangfærslunum.

    Vert að benda á önnur dæmi af vettvangi DVs í dag um málflutning vantrúarfélaga. Vantrúarfélaginn Guðmundur Guðmundsson uppnefnir mig „Brandver‟ og segir: „Nú fær hann daglega raðfullnægingarútrás fyrir píslarvættiskomplexinn[.]‟ Og Magnús S. Magnússon vantrúarfélagi og rannsóknarprófessor í sálfræði við HÍ segir: „Auðvitað er öll skerðing skoðana- og málfrelsis fráleit, en ég heyrði svolítið í Randver um daginn á samkomu um ákveðna tegund Islam hjá guðfræðideild H.Í. og jafn óhugsandi og það væri að svifta hann málfrelsi þá er ég persónulega viss um að hann getur orðið umhverfi sínu mjög skaðlegur og vona að foreldrar haldi a.m.k. saklausum börnum langt frá slíkum manni. Nei, engin bönn, það er jú bannað, en það er ekki enn bannað að vara við og forða börnum frá skaðlegum félasgskap.‟ Þess má geta að fyrirlesturinn sem Magnús vísar til og haldin var hjá Trúarbragðafræðistofu Hugvísindasviðs var yfirlitsfyrirlestur um trúfélög múslima á Íslandi án þess að tekin væri afstaða með eða á móti þeim.

  6. Þeir hugvísindamenn ættu frekar að einbeita sér að alvörufræðamennsku en fárast út af einhverjum minniháttar Facebook kommentum enda detta þeir flestir ekki úr háum akademískum söðli miðað við flesta alþjóðlega akademíska staðla og gætu þeir þar farið í smiðju raunvísindadeildar og læknadeildar.

  7. > „P.s. ég er ekki félagi í Vantrú svo það fari nú ekki að trufla andsvar þitt.‟

    Arnold var ekki félagi í Vantrú þegar hann skrifaði þessa athugasemd Bjarni Randver. Þú þarft að fara varlega í að saka fólk um blekkingar. Arnold sagði satt, þú beitir hér blekkingum.

    Þegar ég talaði um Talibana og Guðna var það eftir lestur greinar í Morgunblaðinu eins og þú bendir á Bjarni . Þú þarft að fara varlega í að saka fólk um blekkingar.

    Það er rétt að Guðni nefndi Vinaleið en hún er algert aukaatriði í umfjöllun hans um Vantrú og Egil Helgason – meðan raunin er að mestöll orka Vantrúar fór í umfjöllun um það mál á þeim tíma sem sinnaskipti Egils í garð Vantrúar áttu sér stað.

    Ég ítreka. Farðu varlega í að saka fólk um blekkingar Bjarni Randver.

  8. Hjalti Rúnar Avatar
    Hjalti Rúnar

    Bjarni Randver bendir á þetta sem dæmi um að við í Vantrú “[hikum] ekki við að beita ítrekað blekkingum”:

    >”Þegar menntaskólakennarinn Helgi Ingólfsson birti blogggrein um málið 3. desember 2011 þar sem hann gagnrýndi vantrúarfélaga fyrir framgöngu þeirra varði vantrúarfélaginn Arnold Björnsson strax félagið og bætti síðan við eftirfarandi ósannindum: „P.s. ég er ekki félagi í Vantrú svo það fari nú ekki að trufla andsvar þitt.‟ Þessi sami Arnold hafði tekið virkan þátt í að skipuleggja aðgerðir Vantrúar gegn mér á sínum tíma á um 600 bls. löngum umræðuþræði vantrúarfélaga af innra spjallborði félagsins sem lekið var til mín upp úr miðjum september 2010 en þar fagnaði hann því t.d. mjög 25. apríl 2010 að vanhæfa siðanefndin, sem félagið var þá í náinni samvinnu við bak við tjöldin, myndi líklega innan tíðar ávíta mig: „Mikið óskaplega yrði ég glaður. Ég opna kampavín ef þetta verður niðurstaðan[.]“”

    Þegar Arnold skrifaði þetta þá var hann ekki félagi í Vantrú. Engar blekkingar, heldur var fullyrðing hans einfaldlega sönn.

    Því miður er þetta lýsandi fyrir vinnubrögð Bjarna Randvers.

    Nei, ég tek þetta aftur, þau eru miklu verri.

  9. Hjalti Rúnar Avatar
    Hjalti Rúnar

    Og þetta eru sem sagt “ítrekuðu blekkingarnar”. Rugl frá þér um hvort Arnold væri meðlimur og einhver mistök hjá Matta í útvarpsviðtali (ég veit ekki af hverju þú heldur að þar sé um “blekkingu” að ræða).

    Viltu ekki koma með einhver almennileg dæmi? Þú ættir nú að hafa úr nógu að taka í stolnu gögnunum frá okkur.

  10. Bjarni Randver Sigurvinsson Avatar
    Bjarni Randver Sigurvinsson

    Ég fagna þessum viðbrögðum vantrúarfélaganna Matthíasar Ásgeirssonar og Hjalta Rúnars Ómarssonar. Þau eru lýsandi fyrir málflutning þeirra.

    Arnold Björnsson kom oft fram opinberlega sem vantrúarfélagi. Hann tók virkan þátt í að skipuleggja og fylgja eftir kæruherferðinni gegn mér eins og sést af umræðuþræðinum um mig af innra spjallborði Vantrúar sem lekið var til mín. Að sjálfsögðu beitir maðurinn blekkingum þegar hann síðan í vörn sinni fyrir Vantrú sver félagsaðild af sér um leið og flett hefur verið ofan af vinnubrögðum félagsins. Hann lætur í veðri vaka í bloggheimum að hann sé hlutlaus aðili þegar sannleikurinn er sá að hann tók virkan þátt í öllu saman. Vantrúarfélagarnir Matthías Ásgeirsson og Hjalti Rúnar Ómarsson vita það mæta vel. Þeir dæma sig sjálfir af þessu og öðru sem þeir hafa sagt hér.

    Hér má sjá nánari upplýsingar um Arnold Björnsson í opinberu félagatali Vantrúar síðla árs 2010 nokkru eftir að ég hafði fengið í hendur umræðuþráð vantrúarfélaga um mig: http://wayback.vefsafn.is/wayback/20101120002931/http://www.vantru.is/spjall/profile.php?mode=viewprofile&u=255

  11. > Arnold Björnsson kom oft fram opinberlega sem vantrúarfélagi. Hann tók virkan þátt í að skipuleggja og fylgja eftir kæruherferðinni gegn mér eins og sést af umræðuþræðinum um mig af innra spjallborði Vantrúar sem lekið var til mín

    Í fyrsta lagi. Umræðuþræðinum af innra spjallborði Vantrúar var ekki “lekið” til Bjarna Randvers. Æskuvinur Hans, Ingvar Valgeirsson, stal gögnum og kom til Bjarna Randvers. Með því að nota orðið “leki” reynir Bjarni Randver að *blekkja* lesendur og gefa í skyn að einhver sem hafði aðgang að þessu spjallborði hefði afritað umræður og komið til Bjarna.

    http://www.vantru.is/2012/10/14/10.00/

    Í öðru lagi. Arnold Björnsson var hættur í Vantrú þegar hann skrifaði athugasemdina á spjallborð Helga Ingvarssonar. Hann hafði ekki aðgang að lokuðu spjallborði Vantrúar á þessum tíma. Þetta liggur fyrir og það eru klárlega ærumeiðingar að halda því fram að Arnold hafi þarna beitt blekkingum.

  12. > Hann tók virkan þátt í að skipuleggja og fylgja eftir kæruherferðinni gegn mér eins og sést af umræðuþræðinum um mig af innra spjallborði Vantrúar sem lekið var til mín.

    Hið rétta er að Arnold Björnsson tók óverulegan þátt í að skipuleggja og fylgja eftir erindi Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands. Ég var að lesa yfir þennan tiltkena umræðuþráð (sem Bjarni Randver hefur enga heimild til að nota eða vitna í) og Arnold er á hliðarlínunni, skrifar nokkrar athugasemdir eins og fjölmargir aðrir félagsmenn í Vantrú (sem hann var þegar málið hófst).

    Hér er um enn eina tilraun Bjarna Randver til að blekkja fólk í þessu máli.

  13. Þórður Ingvarsson Avatar
    Þórður Ingvarsson

    Það gleður mig hjartanlega að hafa rangt fyrir mér. Gleðileg jól Bjarni Randver. Bara kominn í jólaskapið?

  14. Hjalti Rúnar Avatar
    Hjalti Rúnar

    Nú er blekkingin sem sagt ekki sú að hann ljúgi til um aðild sína, heldur að hann “láti í veður vaka” að hann sé að þykjast vera hlutlaus aðili. Það er þín túlkun Bjarni, og ég held að hún standist ekki, enda segir hann síðar að hann sé “hliðhollur” Vantrú.

    Ef einhver meðlimur vill þykjast vera “óháður aðili”, einhver annar en hann sjálfur, og ef hann “hikar ekki við að beita blekkingum”, þá væri nú augljóst að skrifa einfaldlega undir gervi-nafni frá annarri IP-tölu, frekar en að koma undir fullu nafni, þar sem að einföld leit hefði dugað til að sjá að fletta af þessari meintu blekkingu.

    Svo var Arnold auðvitað ekki meðlimur í Vantrú þegar hann átti að hafa beitt þessari “blekkingu”.

    Og hefurðu ekkert að segja um meinta blekkingu Matta? Af hverju kallarðu það blekkingar?
    Fullyrðingin hans var klárlega röng, en augljóslega hefði honum bara getað misminnt. Flokkarðu líka fullyrðingu Ernu í greininni þinni sem “blekkingu”?Túlkarðu öll mistök frá okkur í Vantrú sem “blekkingar”?

    Eru þetta einu dæmin þín um “ítrekaðar blekkingar” Vantrúarmanna?

  15. Arnold Björnsson Avatar
    Arnold Björnsson

    Það er rétt sem komið hefur fram. Ég var ekki í Vantrú þegar ég skirfa þetta komment sem Bjarni nefnir. Ég var því engu að ljúga. Þetta er því afskaplega misheppnað dæmi hjá Bjarna.

    Annars tek ég undir með Agli Helgasyni hér að ofan.

  16. Bjarni Randver Sigurvinsson Avatar
    Bjarni Randver Sigurvinsson

    Mótbárur vantrúarfélaga hér fyrir ofan eru lýsandi fyrir þá þrætubókarlist sem þeir iðka. Dæmin sem ég tilgreindi um blekkingar vantrúarfélaga eru augljós. Það reyndist ekki fótur fyrir fullyrðingum vantrúarfélagans Matthíasar Ásgeirssonar um skrif Guðna Elíssonar þegar hann reyndi ítrekað að gera þau ótrúverðug. Og vantrúarfélaginn Arnold Björnsson, sem verið hafði árum saman í félaginu, tók virkan þátt í umræðuþræðinum um mig af innra spjallborði Vantrúar með vel á þriðja tug innleggja á sínum tíma en sá þráður allur snýst um kæruherferðina gegn mér. Það er lýsandi fyrir vantrúarfélaga þegar þeir síðan neita því að sá sami maður beiti blekkingum þegar hann síðar meir á moggablogginu sver af sér félagstengsl í Vantrú til að árétta vægi varnar sinnar fyrir félagið í málinu. Arnold orðaði þetta svona: „P.s. ég er ekki félagi í Vantrú svo það fari nú ekki að trufla andsvar þitt.‟ Þetta eru orð þess vantrúarfélaga sem m.a. talaði um það í umræðuþræðinum um mig af innra spjallborðinu að „opna kampavín‟ ef félagið næði sínu fram gegn mér.

    Tilhæfulausum ásökunum vantrúarfélaga um þjófnað á opinberum gögnum hef ég svarað með annarri grein hér Hugrás. Hana er að finna hér:
    http://www.hugras.is/2014/01/af-thjofum-og-thjofsnautum-i-helgisogum-vantruar/

  17. > Það reyndist ekki fótur fyrir fullyrðingum vantrúarfélagans Matthíasar Ásgeirssonar um skrif Guðna Elíssonar þegar hann reyndi ítrekað að gera þau ótrúverðug.

    Hvernig reyndi ég ítrekað að gera þau ótrúverðug? Bjarni Randver benti á ein mistök sem ég gerði í útvarpsþætti (podcasti) Vantrúar. Þau mistök viðurkenndi ég þegar mér var bent á þau eftirá. Það eru allar “blekkingarnar”.

    Það eru margar rangfærslur í umræddri grein Guðna. Ólíkt Guðna, þá fæ ég ekki borgað fyrir að svara honum.

    Þegar Arnold skrifaði athugasemd sína var hann ekki meðlimur í Vantrú. Það liggur alveg fyrir. Stagl Bjarna Randvers um að hann hafi verið að blekkja með því að setja fram rétta fullyrðingu í þeirri umræðu er til skammar.

    Í svargrein sinni, sem Bjarni vísar hér á, staðfestir hann að 1) gögnunum var stolið, 2) Bjarni vissi það og 3) hann nýtti þau.

    M.ö.o. ásakanirnar eru alls ekki tilhæfulausar. Ingvar Valgeirsson stal gögnun, Bjarni Randver vissi það og er því þjófsnautur. Þetta eru bara orðabókaskilgreiningar.

    ps. Það að tala um “opinber gögn” er lýsandi fyrir þá þrætubókarlist sem Bjarni Randver iðkar. Gögnin eru ekki og hafa aldrei verið opinber.

  18. Þórður Ingvarsson Avatar
    Þórður Ingvarsson

    Síðan hvenær urðu þessi trúnaðarsamtöl “opinber” gögn? Ákvaðst þú það?

  19. Arnold Björnsson Avatar
    Arnold Björnsson

    Bjarni Randver, ég hætti í Vantrú af persónulegum ástæðum. Það var áður en þitt mál náði hæstu hæðum. Ég var t.d. ekki í félaginu þegar Morgunblaðsgreinin var birt. Ég gekk svo aftur í félagið nú í haust. Þér er frjálst að fabúlera um þetta eins og þér sýnist. Mér er nokkuð sama um það. En það er alveg ljóst að þar ertu fjarri sannleikanum.

  20. Helgi Ingólfsson Avatar
    Helgi Ingólfsson

    Að gefnu tilefni, þar sem orðaskipti mín og Arnolds Björnssonar hafa verið gerð að umræðuefni, tel ég eðlilegt að fram komi að ég skynjaði Arnold ótvírætt sem málsvara og erindreka Vantrúar í samræðunum, þótt hann héldi því fram að hann væri ekki klúbbfélagi þar.

    Tel ég litlu skipta hvort hann hafi verið skráður í Vantrú á umræddum tíma – í fyrsta lagi er ómögulegt fyrir utanaðkomandi að sannreyna hvort sú staðhæfing hans stenst og í öðru lagi tilheyrði hann Vantrú á undan og eftir, að eigin sögn, svo að það virðist koma í sama stað niður. Ég held að það sé mótsögn af þessum toga – að segjast vera ekki skráður í Vantrú og koma samt fram sem formælandi félagsins – sem leiði til þess að mönnum finnst um tilraunir til blekkinga að ræða.

    Ég vil einnig taka fram að ég lít á Vantrú frekar sem lokaðan klúbb en félag. Ekki er öllum hleypt inn, þótt þeir telji sig uppfylla markmið félagsins, og af umræðum að skilja ræður tiltölulega fámennt “eigendafélag” ferðinni innan þessa klúbbs. Ég tel þau sjónarmið, sem Vantrú heldur fram, vissulega geta átt rétt á sér, en að sama skapi tel ég aðferðir þessa klúbbs í þeirri baráttu ekki standa á ýkja háu stigi siðferðistigi.

    Þess utan sýnist mér umræðan hér og víðar renna stoðum undir það sem haldið hefur verið fram um Vantrú og Overton-gluggann – stöðugt er verið að reyna að færa þungamiðju umræðunnar frá aðalatriðum og leyfa henni að hverfa út í aukaatriði. Vantrú komst sjálft yfir einkagögn og trúnaðargögn á vafasaman og vart heiðarlegan hátt, og birti þau opinberlega í fullkomnu heimildarleysi, samhliða þrefaldri kæru til Háskóla Íslands. Er þá ekki eðlilegt að velta fyrir sér hvort þeir Vantrúarmenn, sem þátt tóku umræðum að atlögunni að Bjarna Randveri, séu ekki – einfaldlega í samræmi við eigin skilgreiningu Vantrúar – upp til hópa þjófar og/ eða þjófsnautar?

  21. Hér er grein um Vantrú og Overton gluggann. Túlkun Helga Ingólfssonar er fjarstæðukennd.

    http://www.vantru.is/2011/12/16/16.30/

  22. >Ég vil einnig taka fram að ég lít á Vantrú frekar sem lokaðan klúbb en félag. Ekki er öllum hleypt inn, þótt þeir telji sig uppfylla markmið félagsins,…

    Helgi, ég hef oft leiðrétt þetta hjá þér, en man ekki eftir því að hafa fengið svar hjá þér.

    Félög eru oft með ákveðnar kröfur varðandi það hverjir geta orðið félagsmenn, og ég veit ekki til þess að það sé undarlegt að umsækjendanum sé það í sjálfvald sett hvort hann uppfylli skilyrðin. Í Vantrú er það einmitt stjórnin sem ákveður það hvort að umsækjandi uppfylli skilyrðin eða ekki, en ekki umsækjandinn.

    Ef þetta gerir Vantrú að “lokuðum klúbbi en ekki félagi” (eru lokaðir klúbbar ekki félög?), þá gildir það sama um t.d. flesta stjórnmálaflokka landsins.

    En hefur þú einhver sérstök dæmi í huga varðandi einstakling sem var meinaður aðgangur þrátt fyrir að honum sjálfum hafi fundist hann eiga samleið með félaginu?

    >Ég held að það sé mótsögn af þessum toga – að segjast vera ekki skráður í Vantrú og koma samt fram sem formælandi félagsins -…

    Hann kom ekki fram sem formælandi félagsins. Augljóslega var hann að miklu leyti sammála okkur (enda fyrrverandi félagsmaður), en hann kom ekki sérstaklega fram þarna á vegum Vantrúar, enda var hann ekki félagi!

    Og augljóslega ætlaði hann ekki að beita blekkingum, eins og ég hef bent á áður þá þarf ekki nema einfalda google-leit til að finna nafnið hans á Vantrú.is og lítið mál hefði verið að skrifa einfaldlega undir dulnefni.

    >Vantrú komst sjálft yfir einkagögn og trúnaðargögn á vafasaman og vart heiðarlegan hátt,…

    Hvaða einka- og trúnaðargögn eru það? Glærur frá opnum fyrirlestrum í HÍ? Vart heiðarlegan hátt? Við fengum þær hjá nemanda!

  23. Helgi Ingólfsson Avatar
    Helgi Ingólfsson

    Hjalti Rúnar:

    1) Þú segir: „Félög eru oft með ákveðnar kröfur varðandi það hverjir geta orðið félagsmenn, og ég veit ekki til þess að það sé undarlegt að umsækjendanum sé það í sjálfvald sett hvort hann uppfylli skilyrðin. Í Vantrú er það einmitt stjórnin sem ákveður það hvort að umsækjandi uppfylli skilyrðin eða ekki, en ekki umsækjandinn. Ef þetta gerir Vantrú að “lokuðum klúbbi en ekki félagi” (eru lokaðir klúbbar ekki félög?), þá gildir það sama um t.d. flesta stjórnmálaflokka landsins.“

    Hjalti, ég get gengið í hvaða stjórnmálaflokk landsins sem er, en ekki í Vantrú. Í stjórnmálaflokkum geta flokksmeðlimir ekki greitt atkvæði gegn inngöngu nýrra félaga. Þ.a.l. er ekkert líkt með inntökuskilyrðum Vantrúar og stjórnmálaflokka.

    Í reynd sýnast mér inntökuskilyrðin í Vantrú líkust inntökuskilyrðum í Frímúrararegluna, þar sem meðlimir geta greitt atkvæði gegn inntöku. Ofan á það bætist síðan *leyndó leyndó*-hjúpurinn sem hvílir yfir hvoru tveggju. Því væri máske réttast að tala hvorki um Vantrú sem félag eða klúbb, heldur sem reglu. Vantrúarregluna?

    2) Um Arnold Björnsson segir þú: „Augljóslega var hann að miklu leyti sammála okkur (enda fyrrverandi félagsmaður) …“ Ánægjulegt er að sjá að með þessu staðfestir þú nákvæmlega það sem Bjarni Randver hélt fram í athugasemd hér að ofan.
    —–
    3) Þú spyrð – og svarar að hluta: „Hvaða einka- og trúnaðargögn eru það? Glærur frá opnum fyrirlestrum í HÍ? Vart heiðarlegan hátt? Við fengum þær hjá nemanda!“

    Hjalti, kennslugögn eru einkagögn kennara, ef þú skyldir ekki vita það, og aðrir hafa ekki rétt til dreifingar þeirra án hans leyfis. Samband kennara og nemanda er trúnaðarsamband, ef þú skyldir ekki vita það, og kennslugögn trúnaðargögn. Þetta voru ekki glærur úr „opnum fyrirlestri“ við HÍ, eins og þú staðhæfir ranglega; til þess að tilheyra námskeiðinu þurftu menn að hafa skráð sig í umrætt námskeið, greitt skólagjöld o.m.fl. og kennslugögnin voru eingöngu ætluð þeim lokaða hópi sem skráður var í námskeiðið, enda geymd á lokuðu vefsvæði. Auk þess hefur margoft komið fram að Vantrúarmenn hafa ekki minnstu hugmynd um hvernig kennslan fór fram eða hvernig glærurnar voru notaðar, því að engin þeirra var þarna. Og Harpa Hreinsdóttir rekur rækilega hvernig glærurnar fengust á vafasaman hátt (http://harpa.blogg.is/2012-01-18/stora-glaermalid-og-modgelsi-vantruar-i-hluti/); þar kemur fram að sá, sem lét af hendi glærurnar til vinar síns Vantrúarmanns, hefði aldrei gert það, ef hann hefði vitað á hvern hátt þær yrðu gerðar opinberar í heimildarleysi af Vantrú.
    —–
    4) Í ofangreindu svari (27. jan. 2014 kl. 22:33) ávarpar Arnold Björnsson Bjarna Randver og segist hafa gengið úr Vantrú „áður en þitt mál náði hæstu hæðum.“ Undarlegur og vægast sagt ónákvæmur málflutningur atarna. Það er ekki til neitt „þitt mál“ þarna. Hér er eingöngu um að ræða „mál Vantrúar gegn Bjarna Randveri.“
    —-
    Annars er rétt að benda á færsluflokk Hörpu Hreinsdóttur um stóra glærumáið allt (http://harpa.blogg.is/2012-01-18/stora-glaermalid-og-modgelsi-vantruar-i-hluti/ og víðar). Harpa er, mér vitanlega, eini aðilinn, sem ekki á hagsmuna að gæta og hefur samt gert rækilega úttekt á málinu. Ég held að enginn annar, sem skrifað hefur um málið, hafi staðið utan þess á svipaðan hátt, síst af öllu Vantrú. Vantrú er vanhæf til að fjalla um mál þessi á hlutlausan hátt, enda flækt í þau frá upphafi til enda og í reynd málshefjandi. Bjarni Randver hefur verið hreinsaður af öllum áburði Vantrúar og maður veltir fyrir sér þeirri spurningu, miðað við hvernig Vantrú heldur áfram að jagast í honum, hvort ekki sé tímabært að fá úrskurð þartilbærra aðila hvort um einelti kunni að vera að ræða.

  24. > miðað við hvernig Vantrú heldur áfram að jagast í honum

    Það er Bjarni Randver sem skrifar hér greinar Helgi Ingólfsson. Vantrú svarar.

  25. >Hjalti, ég get gengið í hvaða stjórnmálaflokk landsins sem er, en ekki í Vantrú. Í stjórnmálaflokkum geta flokksmeðlimir ekki greitt atkvæði gegn inngöngu nýrra félaga. Þ.a.l. er ekkert líkt með inntökuskilyrðum Vantrúar og stjórnmálaflokka.

    Helgi, stjórnmálaflokkar hafa ýmis inntökuskilyrði, t.d. er algengt að þeir hafi það skilyrði að þú sért ekki meðlimur í öðrum stjórnmálaflokkum. Flokkurinn sjálfur tekur við *beiðnum* um inngöngu og ákveður hvort að umsækjandinn uppfyllir skilyrðin, sama á við um Vantrú. Það að þú teljir þig uppfylla skilyrðið skiptir ekki máli, það sem skiptir máli er hvort að félagið telji þig uppfylla kröfurnar.

    Og er það vandamál ef haldin er atkvæðagreiðsla um inngöngu nýrra meðlima? Er gagnrýnin sem sagt sú að Vantrú sé of lýðræðislegt félag?

    >Í reynd sýnast mér inntökuskilyrðin í Vantrú líkust inntökuskilyrðum í Frímúrararegluna, þar sem meðlimir geta greitt atkvæði gegn inntöku. Ofan á það bætist síðan *leyndó leyndó*-hjúpurinn sem hvílir yfir hvoru tveggju. Því væri máske réttast að tala hvorki um Vantrú sem félag eða klúbb, heldur sem reglu. Vantrúarregluna?

    Vantrú er ekki með meiri “leyndó leyndó-hjúp” heldur en félög alment. Prófaðu t..d að fá aðgang að póstlista Prestafélags Íslands, eða sitja á prestastefnu, eða jafnvel fá að mæta á alla fundi hjá stjórnmálafélögum. Þú myndir ekki fá það, og þá stundum þrátt fyrir að vera félagi.

    >Um Arnold Björnsson segir þú: „Augljóslega var hann að miklu leyti sammála okkur (enda fyrrverandi félagsmaður) …“ Ánægjulegt er að sjá að með þessu staðfestir þú nákvæmlega það sem Bjarni Randver hélt fram í athugasemd hér að ofan.

    Það hefur ekki verið deilt um það að Arnold hafði verið félagi í Vantrú, eða þá að hann hafi verið að miklu leyti sammála okkur. Það sem um er deilt hvort að hann hafi verið að reyna að beita blekkingum í athugasemdum hjá þér, og eins og ég hef bent á þá er það út í hött að halda því fram (ef hann hefði viljað blekkja á þann hátt sem þið ásakið hann um, þá eru miklu betri aðferðir til þess).

    >Samband kennara og nemanda er trúnaðarsamband, ef þú skyldir ekki vita það, og kennslugögn trúnaðargögn.

    Kennslugögn trúnaðargögn? Það hef ég aldrei heyrt um áður Helgi.

    Það er nú oftast þannig í HÍ að maður getur setið fyrirlestra án þess að vera skráður í námskeið. Veit ekki hvernig reglurnar eru eða ef þeim hefur verið breytt.

    En Helgi, samkvæmt Bjarna Randver var spjallþráður Vantrúar “opinber gögn” af því að ~150 manns höfðu aðgang að honum, eru ekki kennsluglærurnar þá líka “opinber gögn”?

    >Vantrú er vanhæf til að fjalla um mál þessi á hlutlausan hátt, enda flækt í þau frá upphafi til enda og í reynd málshefjandi.

    Sama gildir þá um Bjarna Randver?

    >Bjarni Randver hefur verið hreinsaður af öllum áburði Vantrúar…

    Siðanefnd HÍ komst að því að hann braut ekki siðareglur HÍ. Hann er samt sekur um að hafa t.d. tekið ummæli gróflega úr samhengi og borið út rangfærslur um Vantrú.

  26. Helgi Ingólfsson Avatar
    Helgi Ingólfsson

    Hjalti:
    1)
    >Það hefur ekki verið deilt um það að Arnold hafði verið félagi í Vantrú, eða þá að hann hafi verið að miklu leyti sammála okkur. Það sem um er deilt hvort að hann hafi verið að reyna að beita blekkingum í athugasemdum hjá þér, og eins og ég hef bent á þá er það út í hött að halda því fram (ef hann hefði viljað blekkja á þann hátt sem þið ásakið hann um, þá eru miklu betri aðferðir til þess).Það er nú oftast þannig í HÍ að maður getur setið fyrirlestra án þess að vera skráður í námskeið. Veit ekki hvernig reglurnar eru eða ef þeim hefur verið breytt.En Helgi, samkvæmt Bjarna Randver var spjallþráður Vantrúar “opinber gögn” af því að ~150 manns höfðu aðgang að honum, eru ekki kennsluglærurnar þá líka “opinber gögn”?>Vantrú er vanhæf til að fjalla um mál þessi á hlutlausan hátt, enda flækt í þau frá upphafi til enda og í reynd málshefjandi.

    Sama gildir þá um Bjarna Randver?Siðanefnd HÍ komst að því að hann braut ekki siðareglur HÍ. Hann er samt sekur um að hafa t.d. tekið ummæli gróflega úr samhengi og borið út rangfærslur um Vantrú.<

    Það er þetta "samt sekur"-viðhorf gagnvart Bjarna, sem virðist vera þráhyggja hjá Vantrú. Þið virðist ekki skilja að hann er ekki sekur um neitt, ekki af nokkrum þartilbærum yfirvöldum sem hafa um mál hans fjallað – og það er enginn annar sem getur úrskurðað um sekt. Vantrú er ekki dómstóll, er það nokkuð?

  27. Helgi Ingólfsson Avatar
    Helgi Ingólfsson

    Hjalti, ég biðst velvirðingar.

    Þetta svar mitt virðist allt hafa farið í graut í kommentakerfinu – og var þó alllangt. Heilmikið virðist hafa klippst út og annað gengið til (t.d. tilvitnanir og greinaskil). svo að úr verður illskiljanlegur grautur.

    Ég læt því vera að ræða hér frekar – og ræði ekki málin frekar í svo óburðugu kommentakerfi. Biðst velvirðingar, aftur.

  28. >Það er þetta “samt sekur”-viðhorf gagnvart Bjarna, sem virðist vera þráhyggja hjá Vantrú. Þið virðist ekki skilja að hann er ekki sekur um neitt, ekki af nokkrum þartilbærum yfirvöldum sem hafa um mál hans fjallað – og það er enginn annar sem getur úrskurðað um sekt. Vantrú er ekki dómstóll, er það nokkuð?

    Það hefur nú bara að ég held eitt yfirvald fjallað um mál hans, Siðanefnd HÍ, og vissulega komst hún að því að lokum að Bjarni hefði ekki brotið gegn siðareglum HÍ.

    En það þýðir samt ekki að hann hafi ekki tekið ummæli gróflega úr samhengi og borið út rangfærslur um Vantrú. Ég þarf ekki að vera dómstóll til að benda á það.

  29. > Harpa er, mér vitanlega, eini aðilinn, sem ekki á hagsmuna að gæta

    Það þýðir ekki að hún sé hlutlaus – eins og áður hefur komið fram hafði hún hafði stæka fordóma gegn Vantrú áður en hún skrifaði þessar greinar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *