Ritið 1:2012. Þema: Menningarsaga

Fyrsta hefti Ritsins 2012 er komið út. Í því er rýnt í menningarsöguna.  Ritstjórar Ritsins að þessu sinni eru þau Sólveig Anna Bóasdóttir og Þröstur Helgason.

Í fyrstu greininni er komið inn á það viðkvæma þjóðernispólitíska samhengi sem þátttaka Íslands í bókasýningunni í Frankfurt var sett í með upphafningu fornsagnaarfsins og óbeislaðrar náttúrunnar og vísunum til velvildar Þjóðverja gagnvart hvorutveggja. Ann-Sofie Nielsen Gremaud bendir á að þótt bókasýningin geti tvímælalaust átt þátt í því að móta ímynd Íslands um stundar sakir sé langt frá því að ímyndin virðist ný.

Ólafur Rastrik hugar einnig að sjálfsmynd þjóðarinnar en út frá öðru sjónarhorni. Í samanburði við evrópska menningarsögu virtist hin íslenska full af eyðum sem krafa var gerð um að fylla í kjölfar fullveldis þjóðarinnar 1918. Metnaður Íslendinga var að vera menningarþjóð á meðal menningarþjóða en svo virtist sem lágkúrulegar afurðir erlendrar alþýðumenningar hefðu afvegaleitt hana. Ein helsta táknmynd smekkleysunnar var postulínshundurinn sem stillt hafði verið upp á kommóðum fjölda sveitaheimila.

Í þriðju þemagreininni leiðir Þröstur Helgason svo getum að því að þjóðernisleg íhaldssemi hafi verið ástæða þess að módernismi átti ekki upp á pallborðið á Íslandi fyrr en eftir lýðveldisstofnun árið 1944.

Myndaþáttur Einars Fals Ingólfssonar, „Söguslóðir – Úr Njáls sögu“, kallast skemmtilega á við þema heftisins, ekki síst grein Ann-Sofie. Myndirnar fimm, sem eru hluti af stærra verki, sýna forvitnilegt samspil samtíma og (bókmennta)sögulegrar fortíðar. Á Rangárvöllum stendur einmana nýbúi, grenitré sem hefur verið tjóðrað niður eins og viðbúið sé að það taki sig upp hvað úr hverju. Á Bergþórshvoli stendur Eggert Haukdal, núverandi ábúandi og fyrrverandi alþingismaður, eins og þungbúin áminning um hið sögulega samhengi. Hlíðin að Hlíðarenda hefur verið girt. Stóra-Mörk hefur verið tengd við umheiminn með síma og það eina sem minnir á fortíðina er íslenskur fjárhundur sem horfir aftur og út úr mynd. Í Úthlíð stendur eirðarlaus flaggstöng í svolitlum trjálundi og er fánalaus eins og til að benda á að hún gæti í raun og veru staðið hvar sem er. Allar myndirnar nema sú af Stóru-Mörk gætu verið teknar hvar sem er ef ekki væri fyrir myndatextana sem höfundurinn lætur fylgja. Söguslóðirnar eru í raun og veru horfnar. Í staðinn er kominn samtími sem ef til vill veit ekki fyrir víst hvað hann heitir – með hverju hann ætti að flagga.

Í heftinu eru birtar þrjár greinar utan þema. Henry Alexander Henryson fjallar um skynsemina í náttúrunni og náttúrulega skynsemi. Daisy Neijmann varpar nýju ljósi á þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar um blaðamanninn Pál Jónsson út frá sjónarhorni minnisrannsókna. Og Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um skáldsögu Jakobínu Sigurðardóttur, Lifandi vatnið –––, út frá kenningum um fjölradda frásagnir.