Um höfundinn
Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson

Rúnar Helgi Vignisson er dósent í ritlist við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur umsjón með ritlistarnámi við skólann og er jafnframt rithöfundur og þýðandi. Sjá nánar

Ég gerði mér leik að því á dögunum að lesa tvær gjörólíkar bækur jöfnum höndum. Byrjaði á þeim báðum sama kvöldið og hugðist sjá hvor togaði meira í mig. Þetta voru skáldsögurnar Rökkurbýsnir eftir Sjón og Konungsbók eftir Arnald Indriðason. Báðar nýta þær sér sagnaarf Íslendinga að nokkru leyti og báðar fjalla um meinta glæpi, en þar sleppir reyndar líkindunum með þeim.

Sjón beitir þeirri aðferð að láta Jónas Pálmason, sem er byggður á Jóni lærða, segja mestanpart frá sjálfan og nýtir mergjað orðfæri hans til að spegla persónuleikann. Lítið er um beinar sviðsetningar og samtöl heldur eru samantektir notaðar. Síðan nýtir Sjón lýsingar söguhetjunnar sjálfrar á náttúrufyrirbærum sem eins konar myndskreytingu – stuttir kaflar brjóta upp meginfrásögnina til að sýna okkur hugðarefni hans og heimsmynd. Jónas hefur pata af fræðum Evrópu en er um leið bundinn af íslenskum hindurvitnum. Inn í þetta blandast pælingar um samband skáldskapar og heimildar því í tveimur köflum virðist Jón lærði mæta til leiks. Mér finnst þó ekki leika neinn vafi á því að Sjón vinnur sig frá frumheimildunum, því þótt stíllinn á Rökkurbýsnum virðist svolítið forn er hann allt öðruvísi en stíllinn á ritum Jóns lærða.

Arnaldur beitir sviðsetningum og samantektum á víxl sem gerir textann mun auðveldari aflestrar. Hér segir af hinum unga Valdemar sem kemur til Kaupmannahafnar til að nema norræn fræði hjá sérlunduðum prófessor. Valdemar dregst svo óvænt inn í leit að týndu handriti. Þetta er tilbrigði við spennusöguna, en þó finnst mér Arnaldur iðulega teygja lopann, einkum framan af, eins undarlega og það hljómar um spennusögu. Hann gefur sér góðan tíma til að lýsa persónum í stað þess að kristalla þær með ydduðum senum og lýsandi tilsvörum. Fyrir vikið verða þær fremur flatar. Stundum fer hann út í hálfgerðar ferðamannalýsingar á Kaupmannahöfn og þá fékk ég á tilfinninguna að hann hefði óttast að hafa ekki nægan efnivið í heila bók. Sums staðar má sjá saumförin á textanum, hvernig hann dregur okkur á upplýsingum, enda kann hann þá list að enda hvern kafla á spurn til að halda okkur við efnið. Á löngum köflum fara hinn daufgerði sögumaður, Valdemar, og prófessorinn sérlundaði á milli manna og landa í leit að handritinu dýrmæta án þess að mikið markvert gerist. Ég tengdi ekki við þá leit af því mér fannst hún ekki hafa dýpri merkingu og myndaði hugrenningatengsl við Frank og Jóa í staðinn. Pælingar um faðerni Valdemars fundust mér áhugaverðar en eltingarleikurinn bar þær ofurliði. Enn áhugaverðara fannst mér þegar Halldór Laxness birtist um borð í Gullfossi í seinnihluta bókarinnar. Karlinn lifnar þó ekki almennilega við í meðförum höfundar; maðurinn sem gat í lifanda lífi vart opnað munninn án þess að segja eitthvað óvænt og spennandi er hér rúinn þeim eiginleika. Svo má spyrja hvort það sé við hæfi að bendla Nóbelshöfundinn við glæpafléttu eins og þessa.

Athyglisvert er að skoða stílinn á bók Arnaldar í ljósi vinsælda hans. Hann skrifar lýtalausan stíl sem minnir á blaðamannsstíl, nýtir orðaforðann ágætlega en gætir þess að verða aldrei tyrfinn. Textinn rennur vel en hvergi er að finna frumlegt orðalag eða óvæntar tengingar. Arnaldur gerir m.ö.o. ekki út á listræn tilþrif í stíl.

Leikar fóru þannig að Sjón vann með talsverðum yfirburðum. Ég hafði einungis lokið 145 síðum af Konungsbók þegar ég var búinn með Rökkurbýsnir. Sú síðarnefnda er vissulega styttri, 240 síður í demi-broti á móti 363 síðum í royal-broti, en mér fannst Sjón einfaldlega miðla sínu efni á mun áhugaverðari hátt.  Samt verður ekki sagt að Rökkurbýsnir sé auðveld aflestrar og ég veit satt að segja ekki hvort hún er vel heppnuð að öllu leyti, kannski er hún óþarflega flókin, jafnvel fullupptekin af list sinni, en textinn er seiðmagnaður þegar best lætur og kemur sífellt á óvart. Allar sögulegar skáldsögur bera samtíma sínum líka vitni og þessi skírskotar á snjallan hátt til hamfara undanfarinna ára. Form spennusögunnar eins og það birtist í Konungsbók virðist mér fremur tilgerðarlegt þótt það þykist vera raunsætt.

Share this Post


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *