Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

Hugvísindi fjalla um allt milli himins og jarðar þar á meðal gott og illt. Hér verður vöngum velt yfir illskunni.

Heimsmyndin og illskan

Meðan trúarleg heimsmynd var ríkjandi glímdu menn við vandamálið: Hvernig er mögulegt að samræma veruleika hins illa í heiminum og trú á Guð sem í senn er almáttugur og algóður? Þetta viðfangsefni nefndist theodiche eða guðvörn. Þá tengdu menn hið illa helst við hungursneyðir, drepsóttir og ófrið. Þetta er þó vissulega fremur böl en illska.

Nú er heimsmynd Vesturlanda veraldleg. Athyglin hefur jafnframt beinst í ríkari mæli að þeirri illsku sem kemur fram í mannlegu atferli. Spurt er: Hvernig getur skyni gædd vera sýnt af sér jafnmikla illsku og raun ber vitni? Öldin sem leið afhjúpaði enda illskuna í ríkari mæli en lengi hafði verið raun á. Þar ber Helför Nasista hæst en einnig þjóðarmorð í Rúanda, á Balkanskaga og víðar.

Hvað er illska?

Gera verður greinarmun á böli og illsku, illsku og glæpum sem og illsku og andfélagslegri hegðun. Uppskerubrestur, þurrkar, svínaflensur og aðrar hörmungar hafa þjáningar og dauða í för með sér. Ekki er hins vegar mögulegt að líta svo á að böl af þessu tagi stafi af illsku. Glæpir leiða til skaða, tjóns og jafnvel dauða en eru þó ekki alltaf framdir af illsku. Andfélagsleg hegðun veldur mörgum óþægindum og tjóni en stafar af ýmsu öðru en illum huga. — Það verður að slá þröngan hring um illskuna.

Oft er litið svo á illska komi fram í hugsunum, orðum eða gjörðum sem einstaklingur með óskerta dómgreind hugsar, lætur falla eða fremur að yfirlögðu ráði og meðvitaður um að atferli hans skaði aðra. Markmið raunverulegs illvikja er enda öðru fremur að skaða aðra.

Er til vont fólk?

Það er grundvallarspurning hvort ill verk séu ætíð framin af illsku, þ.e af vondu fólki, eða ekki.

Umfangsmiklar rannsóknir voru á sínum tíma gerðar bæði á helstu gerendum í Helförinni og þeim sem „aðeins“ tóku þátt. Oftast varð niðurstaðan að um venjulegt fólk væri að ræða. Líkleg skýring á þátttöku flestra er sú hlýðni-menning sem byggð hafði verið upp í þýskri þjóðarsál og enn er til staðar í ýmsum samfélagskimum.

Svipuðu máli gegnir um ill verk sem framin eru af einstaklingum. Víst framdi barnamorðinginn María Farrar í ljóði Brechts illt verk en heldur því einhver fram að María hafi verið vond? Hún var skelkuð og svikin um samhjálp. Josef Fritzl vekur þó með ódæði sínu spurninguna um hvort raunverulega sé til vont fólk, skrímsli í mannsmynd?

Að baki þeirrar spurningar blundar oft þrá eftir að einangra illskuna, láta sannfærast um að hún sé raunverulega ekki hluti af veruleika „okkar“ heldur eitthvað í fari „hinna“, skrímslanna. Áður en við sláum því föstu verðum við þó að hafa í huga varnaðaroð Brects um að illvirkinn kunni að vera „dropi af heimsins kvölum“.

Hvernig tökumst við á við illskuna?

Um daga trúarlegu heimsmyndarinnar ákallaði fólk Guð í glímu sinni við hið illa: Kyrie eleison. — Drottinn miskunna þú oss!

Nú erum við ekki síður í þörf fyrir hæli fyrir illskunni. En hin veraldlega heimsmynd kallar á ný úrræði. Ýmsar fræðigreinar leitast við að skilgreina illskuna, afmarka hana og jafnvel meðhöndla. Líka er tekist á við illskuna með hjálp listarinnar, ekki síst bókmenntanna.

Er hinn mikli áhugi á glæpasögum hugsanleg til kominn vegna þess að þar er tekist á við hið illa og það afhjúpað? Stafa gríðarlegar vinsældir svörtu skapanornarinnar Lisbeth Salander, óskilgetinnar dóttur Stieg Larssons og Noomi Rapace, e.t.v. af því að hún dregur illvirkjana ekki aðeins til ábyrgðar heldur endurgeldur þeim einnig illsku þeirra maklega?

(Samið undir áhrifum af Ann Heberlein, 2010: En liten bok om ondska. Stokkhólmi, Bonnier).


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *