ég elska táknmál bolur

Frumvarp um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls

[container]

Um höfundinn
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við máltækni en hefur einnig stundað rannsóknir í samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og orðhlutafræði og hljóðkerfisfræði. Sjá nánar

Nýlega hefur mennta- og menningarmálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Samkvæmt fréttum má vænta þess að þetta frumvarp verði að lögum áður en langt um líður, því að fulltrúar allra flokka lýstu stuðningi við það og fögnuðu því sérstaklega. Þetta er merkilegt frumvarp því að nú á í fyrsta skipti að setja sérstök lög um réttarstöðu íslenskrar tungu sem skal vera „þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“ eins og segir í fyrstu grein frumvarpsins. Reyndar má velta því fyrir sér hvort þjóðtunga sé kannski álíka merkingarlaust orð og lögfræðingar vilja telja okkur trú um að þjóðareign sé – en það er annað mál.
Frumvarpið er þó ekki síður merkilegt fyrir það að þar er kveðið á um að íslenskt táknmál sé „fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta“ (3. gr.), og stjórnvöldum sé skylt að „hlúa að því og styðja“. Jafnframt er skýrt ákvæði um rétt þeirra sem hafa þörf fyrir táknmál til að læra það og nota, og tekið fram að það sé „jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota“ (12. gr.). Í þessu felst stórkostleg réttarbót fyrir notendur táknmálsins, enda fjölmenntu þeir á þingpalla þegar mælt var fyrir frumvarpinu.

En þótt margt sé til bóta í frumvarpinu er þar sitthvað sem orkar tvímælis eða þarfnast nánari skýringa. Í 2. gr. segir: „Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota [íslensku] á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“ Og 10. gr. hljóðar svo: „Stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að íslenskur fræðiorðaforði á ólíkum sviðum eflist jafnt og þétt, sé öllum aðgengilegur og notaður sem víðast.“ Þetta er gott og blessað; en hvernig eiga stjórnvöld að bera sig að við þetta? Um það segir ekkert í frumvarpinu sjálfu, en í athugasemdum við 10. gr. segir að skyldan hvíli „einkum hjá æðstu stjórnvöldum hvers stjórnsýslusviðs“ og „á oddvitum fræðasamfélagsins í heild og þá sérstaklega stjórnendum háskóla og einstakra stofnana þeirra, enn fremur á stjórnendum sjálfstæðra rannsóknarstofnana og fræðasetra“.

Þetta er mjög almennt orðað og þarna vantar einhvers konar verkáætlun – en ekki síður fé. Það er meira en að segja það að tryggja notkun íslensku á öllum sviðum þjóðlífsins. Ég hef t.d. oft bent á (m.a. í greinum í Morgunblaðinu 2006 og Skímu 2009) að þörf er á miklu rannsóknar- og þróunarstarfi í máltækni til að íslenska verði fullgilt mál innan tölvu- og upplýsingatækninnar í framtíðinni. Í íslenskri málstefnu sem Alþingi samþykkti fyrir tveimur árum eru tilgreindar nokkrar nauðsynlegar aðgerðir til að því markmiði verði náð. Ljóst er að þær aðgerðir kosta verulegt fé, en á því bólar ekki. Það er ekki heldur hægt að ætlast til þess að íðorðasmíð verði áfram unnin í sjálfboðavinnu eins og raunin hefur að mestu verið hingað til. Ég er þess vegna hræddur um að þessi ákvæði verði dauður bókstafur – án verkáætlunar og fjármögnunar gerist ekkert.

Sama máli gegnir um fjármál Íslenskrar málnefndar. Eftir að Íslensk málstöð sameinaðist öðrum stofnunum á sviði íslenskra fræða fyrir tæpum fimm árum og varð hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur málnefndin ekki haft neina sérmerkta fjárveitingu og átt allt sitt undir Árnastofnun sem er „skrifstofa Íslenskrar málnefndar“ skv. lögum en hefur að öðru leyti engar lagaskyldur við nefndina. Á þessu verður engin breyting samkvæmt frumvarpinu. Ákvæði um Íslenska málnefnd er að vísu sett þar inn (5. gr.) og verður tekið út úr lögum um Árnastofnun, en því fylgir ekkert fé. Í athugasemdum fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins við frumvarpið er gert ráð fyrir því að árlegur útgjaldaauki vegna samþykktar þess yrði allt að 1,5 milljónir króna og „slík minni háttar breyting rúmist í rekstrarveltu Stofnunar Árna Magnússonar“. Sú athugasemd gefur ekki tilefni til bjartsýni um að fjárhagur málnefndarinnar vænkist við þessa breytingu.

En athugasemdir mínar við ákvæði frumvarpsins um Íslenska málnefnd lúta ekki eingöngu að fjármálum – það má líka velta fyrir sér skipan nefndarinnar. Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins tilnefnir hver eftirtalinna einn fulltrúa: „háskólaráð Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, hugvísindasvið Háskóla Íslands, menntavísindasvið Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir hönd orðanefnda, Bandalag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Hagþenkir.“ Auk þess skipar ráðherra formann og varaformann án tilnefningar. Fjölgað er um þrjá í nefndinni, frá Bandalagi þýðenda og túlka, Staðlaráði og Upplýsingu, en aðrir tilnefningaraðilar eru hinir sömu og áður.

Fornhandrit og texti
Höfundur vill frá nýja hugsun og ný viðhorf inn í Íslenska málnefnd

Það má færa góð rök fyrir aðild allra þessara félaga og stofnana að Íslenskri málnefnd. Hins vegar er þetta nokkuð einsleitur hópur – eingöngu fulltrúar þeirra sem hafa atvinnu af tungumálinu í einhverjum skilningi. Það hefði verið gaman að fá nýja hugsun og ný viðhorf inn í málnefndina með því að setja þar fulltrúa almennra málnotenda, hvernig svo sem þeir hefðu nú verið valdir. Af hverju eru ekki þarna fulltrúar Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, Lionshreyfingarinnar og Kvenfélagasambandsins, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Landssambands eldri borgara, Samtakanna 78 og Bændasamtakanna – jafnvel Heimssýnar og Já Íslands? Ég er ekki í vafa um að slík breyting á samsetningu málnefndarinnar hefði tengt hana betur við það málsamfélag sem henni er ætlað að sinna og gert hana færari um að rækja skyldur sínar við það.

Að lokum legg ég áherslu á að þrátt fyrir þessar athugasemdir fagna ég frumvarpinu vitanlega og er ekki í vafa um að samþykkt þess mun styrkja stöðu íslensku og ekki síður íslenska táknmálsins. Vegna þess að nýlega hefur verið bent á að eðlilegt sé að fræðimenn geri grein fyrir hagsmunatengslum sínum í akademískri umræðu þykir mér líka rétt að taka fram að ég sit í Íslenskri málnefnd sem fulltrúi háskólaráðs Háskóla Íslands.

 [/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *